Urriðaholt – ný hugsun í nýju hverfi
Urriðaholt er nýtt hverfi sem rís í Garðabæ. Í skjólsælum suðurhlíðum nýtur íbúðabyggðin útsýnis yfir Urriðavatn, skólar og önnur og samfélagsþjónusta verður á holtinu og atvinnuhúsnæði að norðanverðu þar sem Náttúrufræðistofnun Íslands hefur hafið starfsemi. Í Kauptúni er nú þegar risin verslunar- og þjónustukjarni í göngufæri fyrir íbúa hverfisins...
Nýjar leiðir í skipulaginu
Skipulag Urriðaholts einkennist af nýrri hugsun. Unnið er frá grunni með sjálfbæra þróun, fjölbreytileika og virðingu fyrir umhverfi og samfélagi að leiðarljósi. Áhersla er lögð á gæði byggðarinnar og heilbrigt og aðlaðandi umhverfi. Nýjar leiðir hafa verið farnar til að ná því markmiði, svo sem með ákvæðum í skipulagi, landmótun, gatnahönnun og meðhöndlun ofanvatns.
Náttúrulegir kostir
Betra byggingarland frá náttúrunnar hendi er vandfundið. Skipulagið nýtir þessa náttúrulegu kosti til að skapa eftirsóknarverða íbúðabyggð í nágrenni hrauns og vatns. Góð staðsetning á höfuðborgarsvæðinu og góðar umferðartengingar teljast ekki síður til kosta Urriðaholts.
Uppbygging Urriðaholts
Garðabær og Urriðaholt ehf. standa saman að uppbyggingu hverfisins. Það er Garðabæ og eigendum Urriðaholts mikið metnaðarmál að í Urriðaholti verði umhverfisvæn byggð í hæsta gæðaflokki. Bygging fyrstu einbýlishúsa hófst sumarið 2008 og fyrstu íbúar fluttu inn vorið 2010. Umtalsverð uppbygging fjölbýlis er nú hafin og munu fyrstu íbúðir verða tilbúnar til afhendingar haustið 2014. Stefnt er að því að skóli í hverfinu taki til starfa haustið 2015.
Umhverfið mótar byggðina
Urriðaholt býður upp á einstök og náttúrurík landgæði sem felast í frábæru útsýni, fagurri umgjörð og fjölbreyttum möguleikum til útivistar. Leiðarljós fyrir byggðina er aðlaðandi borgarumhverfi sem skapar umgjörð um lífsgæði og fjölbreytt mannlíf í samspili við einstaka náttúru svæðisins. Lögð er áhersla á nærgætni við landslag, vistkerfi og minjar og sterk tengsl byggðar og náttúru.
Fyrir fjölbreyttar þarfir
Göngu- og hjólastígar tengja byggðina vatnsbakka Urriðavatns, hrauninu og Heiðmörk. Náttúrustemmningin teygir sig inn í hverfið og skapar einstök leik- og útivistarsvæði. Umferðargötur eru hannaðar til að stuðla að öryggi og hóflegum umferðarhraða.
Verslun og þjónusta er í næsta nágrenni, svo og einn besti golfvöllur landsins.
Dreifikerfi rafmagns í Urriðaholti er 5-víra, sem tryggir betra jarðsamband en hefðbundin dreifikerfi.
Verndun og viðhald Urriðavatns
Urriðavatn og votlendið umhverfis það er falleg landslagsheild og búsvæði fjölda plantna og dýra. Í Urriðaholti er sjálfbær vatnsbúskapur til að tryggja vernd og viðhald umhverfisins. Náttúrulegu rennsli regnvatns í Urriðavatnið er viðhaldið í hringrás, í stað þess að leiða það út í sjó. Þetta er í fyrsta sinn á Íslandi þar sem sjálfbærum ofanvatnslausnum er beitt í heilu hverfi.
Fyrsta flokks samgöngur
Í Urriðaholti eru fyrsta flokks samgöngur. Greið aðkoma er um mislæg gatnamót við Reykjanesbraut til allra átta á höfuðborgarsvæðinu, sem tryggir skjóta vegferð að heiman og heim. Almenningssamgöngur er nú þegar til staðar.v